Hrafnkelsstaðir 1
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Ræktunarhryssur
  • Hrossin okkar
    • Árgangur 2018
    • Árgangur 2017
    • Árgangur 2016
    • Árgangur 2015
    • Árgangur 2014
    • Árgangur 2013
    • Árgangur 2012
    • Árgangur 2011
    • Árgangur 2010
    • Árgangur 2009
    • Árgangur 2008
    • Árgangur 2006
    • Árgangur 2002
    • Árgangur 2000
    • Árgangur 1997
    • Eldri árgangar (í vinnslu)
  • Hross til sölu
  • Folaldahótel
  • Myndir
  • Sauðfé
  • Gestabók
  • In English

Áramótakveðjur

1/1/2020

 
Síðbúnar fréttir ársins 2019
Þegar litið er til baka má segja að allt hafi verið í föstum og hefðbundnum skorðum hér á bæ. "Og þó" nýtt hús var sett niður í túnfótinn á vordögum, kom tilbúið og hafði áður staðið í Austurási við Selfoss. Í því búa nú nýir bændur hér, Jóhanna Bríet Helgadóttir, Atli Geir Scheving og börnin þrjú, Helgi Fannar, Hákon Orri og Hrafnhildur Anna. Ekki seinna vænna en að yngja upp þau gömlu í búskapnum. Að venju var mikið um dýrðir í kringum fjallferð og réttir. Enn skröltir sú gamla á traktornum og eldar ofan í fjallmennina en þessi ferð var í 32. skiptið. Fjárheimtur nokkuð góðar og smalamennskur gengu með betra móti enda veðrið ákjósanlegt svo og heyskapartíð sumarsins. 

Við mættum að sjálfsögðu til leiks á hrútasýningu Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna eins og síðustu ár. Það er alltaf sérstaklega gaman þegar vel gengur. Jóhanna og Atli áttu efsta mislita hrútinn auk þess sem veturgamli hrúturinn þeirra, Ás, var í 2.sæti í sínum flokki.

Heldur dregur af okkur í hrossaræktinni. Aðeins fæddust tvö merfolöld hjá okkur í vor, bæði undan Stormi frá Herriðarhóli. Mæðurnar eru Lygna Dalvarsdóttir og Lind Hrynjandadóttir, en Spönn hafði látið. Sem fyrr eigum við góða að í tamningunum það er Janus á Laugarbökkum, Ásta í Austurási, Óli og Bylgja á feti og Björgvin í Dalbæ. Síðan bættust í hópinn núna Helga Una í Fáksfólum og Lárus í Árbæ.  Takk mín kæru fyrir góða vinnu. Enn eru tekin folöld í fóður og ekkert lát er í þeirri eftispurn. Þetta verða eins og börnin mans og gaman að fylgjast með þeim gera góða hluti i lífinu síðar meir. 

Nú er allt sauðfé komið á hús og rúningur afstaðinn. Í hrútastíunum gengur mikið á og allir hlakka til tímans framundan. Óðum styttist til jólanna en með þessum orðum óskum við ykkur kæru vinir gleði og gæfu á komandi ári með hjartans þakklæti fyrir alla samveru á liðnum tímum.

Hanna og Haraldur Hrafnkelsstöðum. 

Áramótakveðjur!

5/1/2019

 
Árið 2019 er runnið upp
Búskapurinn hefur verið með svipuðu sniði og undanfarin ár, þó alltaf einhver frávik. Þau helstu eru að hrossum búsins hefur fækkað af ýmsum ástæðum, svo sem eðlilegum vegna elli, sölu og óvæntum uppákomum. Aftur á móti hefur sauðfénu heldur fjölgað og spilar þar inn í bjartsýni unga fólksins, Atla og Jóhönnu, sem eru orðnar aðal hjálparhellurnar og stefna að flutning hér á bæ í vor.

Við fórum á skemmtilega hrútasýningu Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna í október. Þar áttu ungu bændurnir, Atli og Jóhanna efsta hvíta lambhrútinn. Hrúturinn stigaðist upp á 89,5 stig og var hann einnig þriðji stigahæsti hrúturinn í Árnessýslu þetta árið. Við gömlu hlutum einnig viðurkenningu fyrir hrútinn okkar hann Þorlák, sem var þriðji BLUP hæsti hrúturinn í Árnessýslu.  

Eins og allir vita var sumarið mjög vætusamt en á endanum náðist að heyja og svo kemur í ljós hversu gott það hey verður til fóðrunar. Fjallferðin var að vanda á sínum tíma og enn og aftur fór sú gamla ég, á traktornum með trússinn og eldaði í mannskapinn. Telst þetta vera 31. skiptið í þessum erindagjörðum.Eins og oft áður urðu kindur eftir í afréttinum og fengum við þær 7 siðustu í desember.

Úr hrossageiranum er það helst að frétta að Askur og Erill voru seldir í haust og hefur Björgvin Viðar verið duglegur að markaðssetja, temja og þjálfa fyrir okkur. Tvær hryssur munu fara í áframhaldandi tamningu eftir áramótin. Fróðadóttir fer til Bylgju og Óla og Herkúlesardóttir til Janusar.

Fóðrafolöldin eru að koma hver af öðru, en ekkert lát er á þeirri aðsókn.

Kæru vinir, við óskum ykkur gleðilegs nýjárs og þökkum fyrir samverustundir og samstarf á liðnum árum.
​
Kveðjur, Hanna og Haraldur.
Picture

Sumarkveðjur

31/7/2018

 
Það eru komin enn ein mánaðarmótin og vart séð til sólar síðastliðna þrjá mánuði. Þetta er nú meira tíðarfarið, sauðfjár komst ekki í afrétt fyrr en um miðjan júlí vegna vatnavaxta í ám. Ekki hefur náðst að heyja að öllu leyti en það næst vonandi fyrir haustið. Hvernig skildi ágúst verða? Annars gekk sauðburður vel og fleiri lömb fæddust og eru til en á síðastliðnu vori.
Aftur á móti er fækkun í hrossastóðinu á bænum. Sytra skilaði ekki sem skyldi og var felld. Kliður minn þótti ekki vera fyrir hvern sem var og var því látinn hverfa. Dalvör fékk hófsperru fyrir tveimur árum sem tók sig aftur upp í vor og fór af þeim sökum. Svo fór illa fyrir Skyggnu blessaðri en hún var felld eftir að hafa ofreynst við köstun á dauðu folaldi. Þá þóttu systkinin Spes og Spölur ekki sýna það sem til þarf í dag og fóru þau sömu leið. Blákvísl var síðan seld.
Svo þegar til kom þá höfðu Lygna og Lind tapað fyljunum þannig að eitt folald fæðist lifandi í ár, grár hestur undan Spönn og Vita frá Kagaðarhóli.  Spönn er nú fyljuð með Spaða frá Stuðlum. Lind og Lygna fara undir Storm frá Herriðarhóli.
Sex þriggja vetra tryppi fara í hausttamningu.   Það eru þrír hestar undan Hrafnari frá Auðsholtshjáleigu, Spuna frá Vesturkoti, Kristal frá Auðsholtshjáleigu og þrjár merar undan Herkúles frá Ragnheiðarstöðum, Toppi frá Auðsholtshjáleigu og Gára frá Auðsholtshjáleigu. Við höldum okkur við tamningafólk síðustu ára og fara þau til Janusar, Bylgju og Óla Andra, og Ástu í Austurási.
Nú styttist í haustverkin, fjallferðir, fjárrag og fleira.
Biðjum að heilsa í bili.

Nýárskveðjur

10/1/2018

 
Árið 2018 er gengið í garð og ekki seinna vænna en að skrifa fáeinar línur. Hauststörf voru með svipuðu sniði og áður. Húsmóðirin fór með sínum traktor sem trúss á fjallið og eldaði í mannskapinn í 30. skipti. 

Við fórum með hrúta á hrútasýningu og komu þeir vel út. Hrúturinn okkar hann Toppur var efsti lambhrúturinn og Vængur var 3ji hæsti veturgamli hrúturinn. Gaman að taka þátt í sýningum sem þessum.  Lömbin komu ótrúlega vel út í haust.  Fengitíminn er hafinn og eru hrútarnir að ljúka við að sinna sínu verki. 

Tryppin sem fóru í hausttamningar stóðu vel fyrir sínu og er Hágangsdóttirin nú þegar seld. Þrjú tryppi fóru til Janusar, þau Spes, Spölur og Herkja. Spes og Spölur eru komin heim en Herkja verður áfram hjá Janusi. 

Við erum búin að endurnýja dálkinn "Hross til sölu" hér á síðunni. 

Að lokum sendum við ykkur okkar bestu nýárskveðjur,
Hanna og Haraldur Hrafnkelsstöðum

Ágústfréttir

15/8/2017

 
Jæja, jæja komin ágúst!
Í síðustu fréttaskrifum stefndi í sauðburð sem gekk stóráfallalaust allavega komu mörg lömb sem væntanlega auka á vanda offramleiðslu kjöts í landinu.

Heyskapur hófst 26.júní og honum lauk með háarslætti 31.ágúst. Mikil og góð hey. Sauðféð fór í afréttinn í byrjun júlí og verður smalað til byggða um miðjan september (réttardagur er 15.september). 

Hryssurnar köstuðu hver af annarri en með töluverðu millibili frá þeirri fyrstu til þeirrar síðustu.
Það var hún Lygna sem rak lestina 31.júlí og færði okkur moldótta hryssu undan Draupni frá Stuðlum. Mikil gleði á bænum, en þetta var eina merfolaldið okkar þetta árið. Spönn kastaði jörpum hesti undan Gaumi sem verður síðan grár. Hún fór svo til Vita frá Kagaðarhóli.  Lind kom með blesóttan hest undan Lukku-Láka og fer til hans aftur. Sytra kastaði jörpum hesti undan Sveini-Hervari, en henni verður ekki haldið oftar ( væntanlega felld í haust). Skyggna var geld en er fylfull núna með Sveini-Hervari. Vonandi kemur önnur Hrafna að vori.

Fjögur tryppi á fjórða vetur fara í frumtamningar í haust. Feður þeirra eru Fróði, Hágangur, Jarl og Huginn. Spennandi.

Á facebook - like síðunni okkar vorum við að setja inn tvö spennandi hross til sölu sem eru bæði fædd árið 2012. Vindótt meri undan Bláskjá frá Kjarri og Sýlu og jarpan hest undan Sveini Hervari og Sytru. Hér er linkur
á það:
https://www.facebook.com/hrafnkelsstadir1/posts/1922413891366613?notif_t=like&notif_id=1502966936342853

Vorkveðjur

7/5/2017

 
Kæru lesendur, um leið og við á Hrafnkelsstöðum óskum ykkur öllum gleðilegs sumars þá eruð þið beðin afsökunar á strjálum fréttaflutningi umsjónarmanns síðunnar. Það eru orð að sönna að tíminn líður hratt á "gervihnattaöld". Manni finnst eins og jólin hafi verið í gær en það er komið sumar. Á þessum bæ er verið að gera allt klárt fyrir sauðburð og önnur vorstörf. Vélarnar teknar út úr geymslunni og í staðinn settar upp innréttingar fyrir lambféð. Nú fara fóðrafolöldin að færa sig út með tilheyrandi rassaköstum. Fyrstu hryssurnar munu kasta um miðjan mánuðinn og þar með eykst spennan hvað kemur, en von er á 11 folöldum frá okkur og fleirum.

Við fórum á sýninguna "Ræktun" í Ölfusshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að hún var frábær í alla staði. Góð og falleg hross, flottir og flinkir knapar og vel uppsett og skipulögð sýning. Hafið kærar þakkir fyrir allir sem komu að.
Bestu kveðjur

Jólakveðjur 

11/12/2016

 

Kæru lesendur. 
Í síðustu skrifum nálgaðist fjallferð. Hún gekk vel og var með nokkru, á annan veg en venjulega. Margt þarf að endurskoða í tímana rás. Þessi smalavika endaði svo með réttardeginum. Mikil réttarsúpuhátíð var hér á bæ. Á annað hundrað manns skemmti sér við söng og hljómsveitarspil. Takk allir sem heiðra okkur hvert haust með komu sinni. 

Eins og áður sagði fóru 6 þriggja vetra tryppi í hausttamningar. Allt gekk vel og verður gaman að fylgja þeim áfram. 

Allt sauðfé er nú komið á hús og rúningur afstaðinn. Í haust keyptum við fé að norðan frá honum Halldóri á Bjarnastöðum. Hópurinn samanstóð af tíu gimbrum, tveimur lambhrútum og einni forystugimbur. Við settum á 73 lömb og verða því 300 fjár á fóðrun í vetur sem er fjölgun frá í fyrra. Fengitíminn er handan við hornið og er stefnt að því að nota að mestu leyti heimahrúta en auk þess verður notast við sæðingar. 

Ekki má gleyma að segja frá því að í október fórum við á Hrútasýningu Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna. Við áttum efsta veturgamla hrútinn og heitir hann Fossi, en hann er undan heimahrút. Það er alltaf gaman að taka þátt í sýningum sem þessum. 

Að lokum viljum við óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Þökkum allt á árinu sem er að líða.
Jólakveðjur 
Hanna og Haraldur, Hrafnkelsstöðum 1


Síðbúnar sumarfréttir

22/8/2016

 
Fimm folöld fæddust okkur í vor og sumar.
-Spönn Huginsdóttir kastaði rauðri hryssu undan Konsert frá Hofi.
-Sytra Gígjarsdóttir kastaði móbrúnni hryssu undan Aðli frá Nýja Bæ.
-Lind Hrynjandóttir kastaði jarpstjörnóttri hryssu undan Aðli frá Nýja Bæ.
-Skyggna Svartsdóttir kastaði móbrúnum hesti undan Hrafnari frá Auðsholtshjáleigu.
-Lygna Dalvarsdóttir kastaði jarpri hryssu undan Kristal frá Auðsholtshjáleigu.

Gamla Spöng reyndist geld þegar til kom og er nú komið að leiðarlokum hjá henni, 25 vetra. Eftirtaldir stóðhestar voru notaðir hér í sumar: Sveinn Hervar frá Þúfu, Draupnir frá Stuðlum, Gaumur frá Auðsholtshjáleigu, Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði og Hrafnar frá Auðsholtshjáleigu. 

Spretta og heyfengur voru með eindæmum góð og lauk heyskap með háarslætti 8.ágúst. Við nöfnur höfum verið að hreyfa hrossin sem eru  heima á járnum. en Björgvin Viðar í Dalbæ hefur tamið og þjálfað 3 4ra vetra tryppi fyrir okkur í sumar. AF þeim eru tveir Sveins-Hervarssynir og svo móvindótt hryssa undan Bláskjá frá Kjarri. Hún kemur til með að bera vindótta litargenið því móðir hennar var vindótt Hrynjandadóttir sem var svo komin útaf vindóttum hryssum. Þessi hryssa kemur vel til, þæg og meðfærileg eftr aðeins 3ja mánaða tamningu. Hún er til sölu og meðfylgjandi er smá myndbrot af henni. Sex tryppi eru svo þriggja vetra sem munu verða fortamin í haust. 

Fyrir nokkrum árum seldum við hryssuna Stöng frá Hrafnkelsstöðum 1, sem er undan Spöng og Stála frá Kjarri. Fyrir skömmu var hún sýnd á síðsumarsýningu á Mið-Fossum af Sigurði Matthíassyni. Hún hlaut m.a. 9 fyrir tölt, brokk, hægt tölt, vilja og geðslag og fegurð í reið. Stöng er klárhryssa og erum við afar stolt af þessum dómi.  Takk Siggi minn. 

Senn líður á sumarið og þá styttist í smalamennskur og réttir. Önnur haustverk fylgja síðan í kjölfarið. 

Gyllir frá Hrafnkelsstöðum 1

27/5/2016

 
Jæja, tími á nýjar fréttir...
Hér á bæ er allt gott að frétta, tíminn líður hratt.
Sauðburður byrjaði 6.mai með trompi. 250 ær og gemlingar báru fallegum lömubum, en þó eru enn 15 ær eftir óbornar. Allt gekk þetta þokkalega, margar hendur vinna létt verk, en hér voru vinnumenn á öllum aldri.

Það fór loksins að rigna í vikunni og gróður grænkar hratt og vel. Nú er bara að bíða eftir að það hlýni örlítið. Vorverkin eru einnig komin af stað í flögunum.

Í vikunni var hann Gyllir okkar sýndur í byggingardómi á Selfossi. Hlaut hann 8,68 í einkunn sem þykir gott.  Þetta er stór hestur, 1.50 cm, og ekki farinn að valda öllum hreyfingum sem þarf til hæfileikadóms. Hann fær að njóta vafans í þeim efnum til haustsins. Gyllir er undan Arði frá Brautarholti og Gáru frá Hrafnkelsstöðum 1, en hann er 4.vetra. 

Í næstu viku fara fóðrafolöldin að fara heim til sín en áður verða nokkrir folar úr hópnum geltir. Þar á meðal eru þrír frá okkur, þeir Snúður, Kostur og Hrafnkell. Hafi einhver áhuga á þeim áður en gelding fer fram eru upplýsingar um þá á heimasíðunni: tp://hrafnkelsstadir.weebly.com/hross-til-soumllu.html

Bestu kveðjur,









Sitt lítið af hverju

17/4/2016

 
Tíminn líður hratt...eins og segir í lagatexta einum. Kominn apríl og lengri dagur hvað birtu snertir, er orðinn vel merkjanlegur. Í morgun heilsaði tjaldurinn með háum hljóðum og þá styttist nú í vorið.

Í mars var haldinn aðalfundur Hrossaræktarfélags Hrunamanna, og enn og aftur erum við "gömlu" heiðruð fyrir ræktun á Hröfnu (Hrafnars og Skyggnu dóttir). En hún var á síðasti ári (2015) með hæstan dóm 5.vetra hryssna á landinu, og einnig næst hæst í Worldfeng. Hér má sjá samantektarmyndband af Hröfnu sem hann Lárus tók saman. https://www.youtube.com/watch?v=9rR6XXbsLmw
Þess má geta að við eigum núna albróður Hröfnu á 1.vetri, stóran og öflugan fola sem minnir um margt á systir sína á sama aldri.

Um páskeleytið var Hrifla (Herjólfs og Lindar dóttir) skoðuð hjá Bylgju á Feti. Hún lýtur mjög vel út, en hér að neðan má sjá myndband af henni.

Fóðrafolöldin stækka og þroskast og er mikið fjör þegar hleypt er út í hlöðu. MEð hækkandi sól og auðri jörð verður farið að hleypa þeim út á hlað, þá er nú betra að umgjörðin haldi.

3 vikur eru í sauðburð og er verið að forgangsraða verkum sem tilheyra sauðfénu. Búið er að snoðklippa, snyrta klaufir og brennimerkja gemsana. Að lokum endað á vigtun og sprautun. Nóg að gera.
Hér að neðan má sjá mynd af sauðunum okkar, þeim Glænef og Eitli.
Picture
<<Previous

Powered by Create your own unique website with customizable templates.